Thursday, March 3, 2011

tvíburi og afmælisdagur.



Kolla vinkona kom með bók handa mér sem heitir held ég "Afmælisdagar og stjörnumerki" - eða eitthvað þannig, og þar geturu semsagt lesið hvern og einn afmælisdag og hvað hann merkir og hvernig hann lýsir hverjum og einum. Ég veit það að það er frekar langsótt en í mínu tilfelli átti það asnalega vel við og mér fannst geggjað að lesa þetta. - Þá sérstaklega útskýringuna á stjörnumerkinu mínu sjálfu, þá var ég algjörlega að lesa um sjálfan mig og svara meira segja eflaust ákveðnum spurningum.
Minn afmælisdagur er semsagt svona;

3 Júní.
Persónuleiki: Þú lítur svo á að allir séu jafnir og þolir ekki óréttlæti. Þú hefur tilhneigingu til að fara ótroðnar slóðir og ert óhræddur við að koma skoðunum þínum á framfæri. Þú munt aldrei líða fordóma af neinu tagi og myndir njóta þess að lifa í veröld þar sem enginn ójöfnuður ríkti. Það andrúmsloft friðar og ástar sem fylgir þér hefur áhrif  á alla í kringum þig.

Lífsbrautin: Þú fæddist til að láta skoðanir þínar í ljós og berjast fyrir réttindum annarra. Þú hefur heilmikið að segja og verður miður þín ef lokað er á þig á hverjum vettvangi. Þú hefur sterka þörf fyrir að sýna þig og ert stundum dálítið örgeðja, en hvað með það? Ef þú ert sjálfum þér trúr hlýturu umbum fyrir.

Ástin: Þú dregur að þér manneskjur sem vilja ganga þér í móður- eða föðurstað eða gera til raun til að bæla þig niður. Júpíter stjórnar deginum þínum, pláneta hugarflæðis og þekkingarleitar, svo því ekki að reyna við Bogamanninn sem einnig er stjórnað af Júpíter? Hann mun án nokkurs efa leyfa þér að leika lausum hala.
Tvíburinn
- þarna las ég algjörlega sjálfan mig, ég veit þetta á alls ekki við alla tvíbura - en ég er greina týpískur tvíburi :)


Þú ert hlý, skemmtileg og yfirmáta gáfuð persóna. Þar sem þú ert orkumikill en ákveðinn viltu halda öllum möguleikum opnum. Þú færð einhverja hugmyndina á fætur annarri og ert alltaf á hlaupum. Lífið gefur þér stöðugan innblástur og þig þyrstir í þekkingu. Þú ert fyrirferðamikil persóna en virka stundum yfirborðskennd, aðallega vegna þess að þú ert alltaf á iði og fólk fær ekki tíma til að skynja tilfinningalega dýpt þína. 

Þú ert frábær afþví að: kæti þín, gáfur og fyndni halda heilu veislunum í heljargreipum. Þú ert skapandi snillingur með einstæða rithæfileika – nýttu þér þá! Þú ert fær um að segja bráðskemmtilegar gamansögur og hefur sérstæðan húmor sem vinir þínir vitna til í tíma og ótíma. Þú átt auðvelt með að greina sundur aðal og aukaatriði og getur eytt heilu klukkustundunum í að sundurgreina eigin tilfinningar annarra.

Þú ert óþolandi af því að: þér hættir til að hlaupa fram og til baka eins og höfuðlaus hæna sem leiðir til þess að aðrir eiga erfitt með að slappa af í kringum þig. Oft á tíðum ertu ósamkvæmur sjálfum þér og skiptir um skoðun hraðar en auga á festir. Þegar þú lofar einhverju áttu erfitt með að standa við orð þín, ekki vegna þess að þú viljir það ekki heldur vegna þess að þú veist ekki hvernig þér líður frá einni mínútu til annarrar.

Leynihliðin: Þú ert stundum tæpur á taugum og einangrar þig. Stundum finnurðu sterka þörf fyrir að eiga í djúpu og einlægu sambandi sem sópa myndi öllum erfiðleikum burtu. Upp að vissu marki gerirðu þér grein fyrir sjálfhverfni þinni og myndir gjarnan vilja kafa í hugardjúpin og finna upptök vandans. Þú þráir að finna stóra sannleikann en innst inni veistu að hann er líklegast ekki til. Af og til bregður þú fyrir þig hvítri lygi eða ýkir í þörf þinni fyrir að eiga samskipti við annað fólk.

No comments:

Post a Comment